Klúbbastarf


Klúbbastarf Zelsiuz

Í Zelsíuz eru ýmsir klúbbar starfræktir, bæði sérhæfðir klúbbar og áhugasviðsklúbbar. Markmið klúbbana er m.a. hópefli, efla jákvæða hegðun og bæta félagshæfni.

Z-ráðið: Jónína Ósk er umsjónarmaður Z-ráðsins en aðrir starfsmenn sitja fundina og taka virkan þátt í starfi ráðsins. Z-ráðið er klúbbur sem vinnur að því að bæta starfið í félagsmiðstöðinni og unnið er að jákvæðri hegðun og forvörnum.  Helsta hlutverk Z-ráðsins er að reka félagsmiðstöðina með aðstoð starfsmanna. Þannig verður reynt að láta unglinga bera sem mesta ábyrgð og hafa frumkvæði. Starfsfólkið á fyrst og fremst að vera leiðbeinendur og aðstoðarmenn.

Á þessum fundi er farið yfir helstu verkefni næsta mánaðar, búin til dagskrá og þeim boðið að skrá sig á verkefni. Það er því ákveðin hópur sem tekur þátt í að skipuleggja og halda utan um hvert verkefni. Þau njóta síðan aðstoðar og leiðbeiningum starfsmanna.

Mjög mikilvægt er að verðlauna Z-ráðið fyrir góð störf, til dæmis þurfa þeir unglingar sem vinna á viðburðum ekki að borga fullt gjald og stundum ekki neitt.  Þau fá síðan alltaf punkta fyrir það sem þau gera eins og að taka að sér verkefni, mæta á fundi, ganga frá, sjá um sjoppu og fyrir að sýna almenna jákvæða og góða hegðun. Aftur á móti verður takmarkaður fjöldi sem vinnur á hverjum viðburði þar sem ekki er gott að hafa of marga, þau eiga því að skipta þessu á milli sín.

Z-ráðið mun því innihalda þá unglinga sem við vinnum nánast með og þeim unglingum sem hafa bæði metnað og áhuga á að gera félagsmiðstöðina að því sem hún er. Það verður markvisst unnið að því að efla, styrkja og auka sjálfstæði þessara unglinga sem mun vonandi smita út frá sér til annarra unglinga. Einstaklingarnir eiga að vera vímuefna- og tóbakslausir.

Stelpuklúbbar:  Í vetur verða starfræktir tveir stelpuklúbbar, annars vegar klúbbur fyrir 8. bekk og hins vegar fyrir 9.–10. bekk. Markmið klúbbanna er að vera skemmtilegur en upplýsandi fyrir þátttakendur. Umræðuefnin verða fjölbreytt en leitast verður eftir því að styrkja, styðja og fræða þær sem taka þátt ásamt því að hafa gaman og eiga góðar stundir saman. Stelpuklúbburinn á þó fyrst og fremst að vera skemmtilegur og því nauðsynlegt að leyfa léttara umræðuefni og viðburðum inná milli. Klúbbarnir eru starfræktir allan veturinn og endar starfið í vor á lokaferð sem klúbbarnir hafa safnað sér fyrir með því að standa fyrir einhvers konar viðburðum yfir veturinn.

Strákaklúbbar: Í vetur verða starfræktir tveir strákaklúbbar, annars vegar fyrir stráka í 8.bekk og hinsvegar fyrir stráka í 9. og 10.bekk. Þessir klúbbar hafa verið í gangi á fjórða ár og eru búnir að festa sig í sessi og eru eftirsóknarverðir. Viðfangsefni klúbbanna ráðast af andrúmslofti og áhuga þeirra sem taka þátt en aðalmarkmiðið er að vinna með sjálfsímynd og félagslega hæfni. Leitast er við að mynda traust innan hópsins og munu umsjónarmenn þeirra nýta sér margskonar mismunandi aðferðir til þess. 

RPG klúbbur: Í óbeinum tengslum við strákaklúbbinn er einnig svokallaður RPG (RolePlayGame) klúbbur en þar er meðal annars spilað Dungeons and Dragons, LAN-að og ýmislegt fleira sem fellur að áhugasviði þeirra. Bæði kynin eru velkomin í þennan klúbb. Siggi og Arnar sjá um RPG klúbbinn.

 

Við erum mjög opin fyrir allskyns hugmyndum af flottum klúbbum og munum bæta við fleirum áhugasviðslúbbum í vetur 😀