Um Zelsiuz


Félagsmiðstöðin Zelsíuz

Félagsmiðstöðin Zelsiuz hefur verið starfrækt síðan 1980 en aðstaðan hefur breyst mikið frá stofnun. Zelsíuz er staðsett í stóru húsnæði að Austurvegi 2B á Selfossi. Húsnæðið býður uppá mikla möguleika og er vel útbúið.

Markmið félagsmiðstöðvarinnar er fyrst og fremst að bjóða ungmennum úr 5. – 10. bekk í Árborg upp á aðstöðu til að  koma saman og vinna að mismunandi verkefnum og áhugamálum undir handleiðslu starfsmanna. Zelsíuz vinnur einnig markvisst að forvarnarmálum, valdeflingu og lýðræðislegri þjálfun og notast starfsmenn við aðferðafræði reynslunáms. Einnig vinnur Zelsíuz að því að tengja saman ungmenni úr mismunandi hverfum sveitarfélagsins.  Starfseminni er skipt upp í starf fyrir miðstigið (5.-7.bekkur) og starf fyrir unglingastigið (8.-10.bekkur).

Vetraropnanir

5.-7.bekkur

Mánudagur        14:00 – 16:00

Þriðjudagur       14:00 – 16:00 (Starfið fer fram á Stokkseyri)

Fimmtudagur 14:00 – 16:00 

Föstudagur      14:00 – 16:00 (Einungis klúbbastarf – lokað fyrir þá sem ekki eru skráðir í klúbbana)

8.-10.bekkur

Mánudagur       19:30-22:00

Þriðjudagur      19:30-22:00 (Starfið fer fram á Stokkseyri)

Miðvikudagur   14.00 – 16:30 / 19:30 – 22:00

Fimmtudagur   Lokað 

Föstudagur      19:30 – 22:00

Helgar             Lokað – nema ef um sérstaklega skipulagða atburði sem eru auglýstir sér

 

Stefna og starfsemi Zelsiuz

Til að einfalda og skýra stefnu og starfsemi Zelsiuz hefur stefnunni verið skipt upp í 6 greinar. Stefna Zelsiuz er endurskoðuð á hverju hausti.

1. grein- Zelsiuz stendur öllum krökkum í 5. – 10 bekk opin

Zelsiuz er staður unglinga og þjónustar fyrst og fremst unglinga í 8. – 10. bekk í sveitarfélaginu Árborg en unglingum úr öðrum sveitarfélögum er velkomið að kíkja í heimsókn. Einnig er reynt að vinna að samvinnuverkefnum með félagsmiðstöðvum í nágrenninu. Zelsiuz býður reglulega upp á opnanir fyrir 5.-7. bekk og eftir áramót er 7. bekk boðið á opið hús eitt kvöld í viku.

2. grein – Z – ráð hefur áhrif

Z – ráðið er hópur unglinga sem vinnur náið með starfsmönnum Zelsíuz við að reka félagsmiðstöðina. Þau fá hlutverk og er gefin ábyrgð í félagsmiðstöðinni og eru þau hvött til að taka frumkvæði og leggja sitt að mörkum við að skipuleggja starfsemi félagsmiðstöðvarinnar.

3. grein – Fjölbreytt starfsemi..

Húsnæði Zelsiuz er virkilega gott og býður upp á mikla möguleika. Því ætti að vera hægt að bjóða uppá fjölbreytta aðstöðu og reynt er að vinna að því að höfða vel til hópa sem standa örlítið út úr. Einnig er mikilvægt að Zelsiuz sé einnig sá staður þar sem unglingarnir geta komið og slakað á og blandað geði.

4.grein – Jafnrétti.

Zelsíuz stuðlar að auknu jafnrétti og ekki gert upp á milli hópa. Það getur oft verið erfitt en unglingarnir eru hvattir til að koma með athugasemdir og hugmyndir um hvernig er hægt að minnka mismunun og yfirgang ákveðinna hópa. Reynt er að halda öllum kostnaði niðri svo allir hafi möguleika á að taka þátt.

5. grein – Klúbbastarf

Zelsiuz býður uppá margvíslega klúbba sem eiga að vera uppbyggilegir og skemmtilegir. Forstöðumaður setur af stað 4 – 6 klúbba, stelpu- og strákaklúbba, áhugasviðsklúbba, t.d. leiklistarklúbba, matreiðsluklúbba, spilaklúbba. Z – ráðið er síðan einnig er talið sem klúbbur. Unglingarnir geta einnig komið með sínar hugmyndir af klúbbum. Einnig verður boðið upp á námskeið sem geta þróast í klúbba. Þannig getur ljósmynda- eða borðtennisnámskeið hæglega þróast í klúbb.

6. grein – Hreinskilni, ábyrgð og traust.

Mikið er lagt í það að mynda traust milli starfsfólks og unglinga. Það er gert með því að leggja mikið upp úr hreinskilni og eru lygar mjög illa liðnar. Starfsfólk verður einnig að vera hreinskilið og taka á hlutunum á sanngjarnan hátt þegar eitthvað kemur upp á. Einnig er mjög mikilvægt að unglingarnir fái ábyrgð svo þeir finni að þeir njóta trausts og virðingar hjá starfsfólki. Þessa ábyrgð og traust þarf að vinna sér inn og hægt er að tapa þessu trausti.

 

Framtíðarsýn Zelsiuz

Í framtíðinni ætlar Zelsiuz að bjóða uppá fjölbreytta starfsemi sem getur höfðað til fjölmenns hóps unglinga sem eru virkir þátttakendur í skipulagningu Zelsiuz. Zelsiuz mun bjóða uppá gott forvarnarstarf og trúnaðarsvæði fyrir unglinga. Einnig á Zelsiuz að vera í góðu samstarfi við aðrar félagsmiðstöðvar bæði innanlands sem og utanlands. Markmið Zelsiuz er að efla sjálfstraust, ábyrgð og virkni unglinga í samfélaginu. Zelsiuz ætti því að stefna að því að hafa öflugt Z – ráð og eiga aðila í Ungmennaráði Samfés að minnsta kosti annað hvert ár.